Fyrri hluta BALL, Be Active through Lifelong Learning, alþjóðlega samstarfsverkefnisins er nú lokið og vinna við síðari helming þess hafin. Fyrri hluti fólst í að kortleggja hvað hefur verið gert til þess að undirbúa fólk undir þriðja æviskeiðið og eftirlaunaárin og að kanna meðal einstaklinga hverjar væntingar þeir hefðu til þeirra. Niðurstöður hafa verið birtar í skýrslum fyrir hvert land sem tekur þátt í verkefninu, þ.e. Ísland, Pólland og Spán og í samanburðarskýrslum milli landanna þriggja. Seinni hluti verkefnisins felst í gerð leiðbeininga um hvernig best megi standa að undirbúningnum og eru þær lokaafurð BALL verkefnisins. Hugmyndir að leiðbeiningum voru kynntar og ræddar á þremur vinnufundum í október, hugarflugsfundi með bakhjörlum og öðrum sem komu að kortlagningunni, opnum fundi hjá U3A Reykjavík og vinnufundi stýrihóps og sérfræðingateyma BALL verkefnisins í Alicante. Hér er sagt stuttlega frá hverjum fundi.

Hugarflugsfundur 13. október

Hugarflugsfundur BALL

Á fundinum voru kynntar fyrstu hugmyndir sérfræðiteymis U3A Reykjavík um útfærslu og innihald leiðbeininga. Hugmyndirnar eru að mestu hugarsmíð Jóns Björnssonar . Er þar lagt til að leiðbeiningar skiptist í eftirfarandi þrjá þætti:

" Vitundarvakning um mikilvægi reynslu og færni þeirra sem eru á aldrinum 50 ára og eldri.
" Sjálfskoðun þeirra sem vilja undirbúa sig fyrir breytingar
" Vöruhús tækifæranna á þriðja æviskeiðinu.

Vitundarvakningin er miðuð bæði við samfélagið í heild og einstaklingana sjálfa. Með sjálfskoðun er átt við aðferðir við að endurmeta eigin stöðu og styrk. Vöruhúsið væri svo safn tækifæra, aðgengilegra um vefsíðu/vefgátt þar sem fá má upplýsingar um hvaða möguleikar og tækifæri séu í boði fyrir þetta æviskeið, t.d. ef menn vilja breyta um starf, stofna fyrirtæki, eða bara leita upplýsinga. Í vöruhúsinu yrðu "rekkar" nefndir eftir þemum/þörfum og í hverjum rekka "hillur" með ýmissi "vöru" sem heyra undir þemað. Fundarmenn tóku vel í þessar hugmyndir sem voru ræddar og metnar og komu fram margar tillögur sem verða nýttar í framhaldinu.

 

Opinn fundur U3A Reykjavík 20. október

Á fundinum voru ofangreindar hugmyndir og tillögur kynntar og ræddar og var þeim vel tekið af fundargestum. Í umræðu eftir kynningu bentu fundargestir á að leggja þurfi meiri áherslu á þörf vinnuveitenda og samfélagslega nauðsyn við gerð leiðbeininga og að vitundarvakning þurfi einnig að snúa að einkageiranum. Sett var fram spurning um hvort að til væri nægileg vitneskja um um tölvukunnáttu þeirra sem eru á þriðja æviskeiðinu þar sem hún væri forsenda þess að þeir sem eru á þessu æviskeiði gætu nýtt sér vöruhúsið og tækifærin sem það býður upp á.

Fundur stýrihóps og sérfræðingaráðs BALL í Alicante 26-27. október

Fundur í Alicante

Stýrihópur og sérfræðingateymi BALL verkefnisins, fulltrúar samstarfsaðilanna þriggja, U3A Reykjavík, UPUA í Alicante og LUTW í Lublin hittust í Alicante í lok október með verkefnisstjóra Evris og ræddu hugmyndir um innihald og útfærslu leiðbeininga. Í tengslum við fundinn hélt UPUA í Alicante fund þar sem fjölmörgum aðilum og sérfræðingum var boðið til kynningar og umræðu um hugmyndadrög þau sem fyrir lágu. Var fundurinn allfjölmennur og tóku fundarmenn virkan þátt í umræðunni, þ.á m. félagsmálastjóri Alicanteborgar, og komu fram margar góðar ábendingar. Meginniðurstaða fundarins í Alicante er að fallist var á hugmyndir íslenska sérfræðingateymsins um skrefin þrjú, vitundarvakningu, sjálfsskoðun og vöruhús og ákveðið að vinna áfram eftir þeim grunni. Verkaskipting var ákveðin og ber Ísland ábyrgð á þróun vöruhússins, Pólland á sjálfskoðunar þættinum og Spánn á útfærslu vitundarvakningar, en allir koma að endanlegri útfærslu hugmyndanna.

 Texti: Ingibjörg R. Guðlaugsdóttir, myndir: Ingibjörg R. Guðlaugsdóttir og Hans Kristján Guðmundsson