Á myndinni sést teymi U3A Reykjavík sem vann að þróun Vöruhússins, Hans Kristján, Ingibjörg Rannveig…
Á myndinni sést teymi U3A Reykjavík sem vann að þróun Vöruhússins, Hans Kristján, Ingibjörg Rannveig, Anna María og Jón Ragnar

Evrópska samstarfsverkefnið Catch the BALL sem U3A Reykjavík tók þátt í og lauk í sumar sem leið hefur nú farið í gegnum nálarauga matsmanna Evrópusambandsins. Umsögn matsnefndar og einkunnargjöf er vægast sagt mjög góð. Verkefnið hlaut 86 stig af 100 mögulegum og telst þar með til flokks gæðaverkefna Erasmus+ áætlunarinnar sem birt eru á vef ESB. Í umsögninni segir lauslega þýtt meðal annars að verkefnið hafi borið góðan árangur, settum markmiðum náð og að niðurstöður séu nýskapandi og í háum gæðaflokki.

Talið var ljóst að samstarfsaðilarnir hafi aukið hæfni sína til að sinna markhópnum 50+ og aðferðafræðin var talin samræmast vel markmiðum verkefnisins. Sérstaklega þótti matsmönnum mikið til Vöruhúss tækifæranna koma og tekið var til þess hve auðvelt aðgengi væri þar fyrir markhópinn. Þetta er afar ánægjulegt og fjöður í hatt U3A Reykjavík sem stjórnaði og bar ábyrgð á þróun Vöruhússins innan verkefnisins. Samstarfsaðilar okkar voru Evris ses., Reykjavík sem m.a. sá um verkefnisstjórn, Tæknigarðar Kaunas (Kaunas STP) og Starfsþjálfunarsetrið MBM TDC í Liverpool. Bakhjarlar þess á Íslandi voru BHM, Landsvirkjun, Starfsmannafélag Reykjavíkurborgar og VR. U3A Reykjavík þakkar öllum þeim sem að verkefninu komu, þar á meðal hugbúnaðarfyrirtækinu VISKA Vef ehf, gott og árangursríkt samstarf.