Evrópska samstarfsverkefnið HeiM, Heritage in Motion eða Leiðir að menningararfinum sem U3A Reykjavík tekur þátt í ásamt samstarfsaðilum í Alicante, Zagreb og Varsjá heldur áfram á vegferð sinni. Þrátt fyrir tafir og erfiðleika vegna Covid-19 heimsfaraldursins og takmarkana á fundum, samkomum og útiveru í öllum samstarfslöndunum er úrvinnsla og þróun í góðum gangi með rafrænni vinnu við leiðir og fjarfundum.

Fjölmargir hópar fólks á efri árum, 50+, hafa, með aðstoð Wikiloc appsins, unnið að skilgreiningu, hönnun og kortlagningu leiða að mikilvægum og áhugaverðum menningararfi hjá öllum samstarfsaðilunum . Nú er fjórða fréttabréf HeiM verkefnisins komið út og má þar fræðast um þau viðfangsefni sem verið er að vinna í hverju landi. Vonast er til þess að þegar Covid-19 faraldrinum linnir gefist tækifæri fyrir alla að njóta þeirra tækifæra sem liggja í þeim leiðarlýsingum sem birtar verða á vefsíðum HeiM og U3A. Stefnt er að það gæti orðið í maílok. Fylgist með.