HeiM teymið á fyrsta verkefnisfundinum  í Alicante
HeiM teymið á fyrsta verkefnisfundinum í Alicante

HeiM verkefnið er komið á fulla ferð

Hópur U3A félaga vinnur nú að HeiM verkefninu, Heritage in Motion, um leiðir að menningararfleifðinni. Verkefnið hófst í nóvember 2018, til tveggja ára og styrkt af Erasmus+ áætlun ESB og unnið með teymum í þremur öðrum löndum í Alicante á Spáni, í Zagreb í Króatíu og í Varsjá í Póllandi undir forystu UPUA, Universidad Permanente við Háskólann í Alicante.

Ingibjörg R. Guðlaugsdóttir leiðir íslenska teymið en með henni eru Hans Kristján Guðmundsson, Jón Björnsson, Dagrún Þórðardóttir, Þór Jakobsson og Birna Bjarnadóttir.

Fyrstu verkefnin sem teymið vann var þýðing efnis af ensku á íslensku. Fyrir liggur kynningarblöðungur og fyrsta fréttabréfið tilbúið til birtingar og dreifingar.

Vefsíðu verkefnisins, sem enn er í þróun má sjá hér https://www.heimheritage.eu/  Á facebook síðu verkefnisins má sjá ýmsar færslur tengdar markmiði verkefnisins á öllum tungumálum samstarfsaðilanna. 

Þá var boðað til fundar með hópi fólks með þekkingu á hinum ýmsu hliðum menningararfsins til viðræðna um helstu mögulegu áhugamál fólks 50 ára og eldra á sviði menningararfleiðar. Jón Björnsson stýrði fundinum og fram komu ýmsar góðar og áhugaverðar hugmyndir sem nú er unnið með. Áfram verður leitað til þessa "sérfræðingahóps" á meðan verkefnið er í gangi. Verið er að vinna fyrstu kortlagningu hugmynda og aðgerða sem síðan verður grunnur fyrir námskeið í haust fyrir 50 ára og eldri um að skilgreina leiðir að þessari arfleifð.

Teymið tók þátt í fjarfundi með stjórnarteyminu í Alicante þar sem lagðar voru línurnar fyrir næstu verkefni fram á haust þar með talinn fund allra sem að verkefninu koma og verður haldinn hér á landi í sumar.

Teymið hittist nokkuð reglulega á fundum í Þórunnartúni til að fylgja eftir tímaáætlun verkefnisins og heldur einnig fjarfundi til viðræðna um framvindu samstarfsins.

Táknmynd HeiM verkefnisins