Árni INdriðason segir frá MR
Árni INdriðason segir frá MR

U3A Reykjavík heimsótti hina öldnu menntastofnun Menntaskólann í Reykjavík fimmtudaginn 19. Nóvember. Árni Indriðason, sagnfræðingur og kennari við skólann, sagði sögu skólans í máli og myndum á sal, þar sem gestirnir sátu umkringdir myndum af nokkrum konungum Íslands og rektorum skólans frá upphafi hans á þessum stað, en Árni taldi skólann geta rakið ættir sínar allt aftur á 11. öld til þeirra skóla sem voru stofnaðir á biskupssetrum landsins. Meðal konunganna var það Kristján áttundi sem leyfði Íslendingum að stofna stéttaþing og kom það fyrst saman í þessum sal árið 1845 ári fyrr en skólinn tók til starfa í þessu nýja skólahúsi. Árni nefndi einnig hinn fræga þjóðfund 1851, þar sem þingheimur mælti hin frægu orð: "Vér mótmælum allir" þegar Trampe greifi rauf þing. Andi sögunnar var vel merkjanlegur í þessum hátíðlega sal. Meðal gestanna voru allmargir fyrrverandi nemendur skólans og urðu nokkrar umræður um stöðu skólans í dag og þróun námsins. Kom á óvart að aðsókn nemenda og fjöldi (um 900) hefði um árabil verið stöðugur og nær engum þurft að vísa frá. Gömlu skólabyggingarnar eru allar enn í notkun, fjósið, Íþaka og leikfimisalurinn. Yngvi rektor heilsaði gestum og Ólöf Erna Leifsdóttir, kennslustjóri og jarðfræðikennari, leiddi hópinn um gömlu byggingarnar og þær yngri, Casanova , sem er komin yfir fimmtugt,og Elísabetarhús, sem síðast var tekið í notkun. Voru þar ýmsar minningar rifjaðar upp og spjallað um sitt hvað sem kom upp í hugann um aðstöðu og framgöngu kennara í den. Heimsóknin var einstaklega vel heppnuð og gestirnir sem voru um 25 talsins nutu þess í ríkum mæli að anda að sér andrúmslofti þessa gamla menningar- og menntaseturs. U3A Reykjavík þakkar þeim Yngva rektor, Ólöfu Ernu og Árna kærlega fyrir ánægjulega og fræðandi stund.

Texti og mynd: Hans Kristján Guðmundsson