Ásdís Egilsdóttir ræddi um karlmennsku í íslenskum miðaldabókmenntum
Ásdís Egilsdóttir ræddi um karlmennsku í íslenskum miðaldabókmenntum

Karlmenn í blíðu og stríðu voru á dagskrá 10. Nóvember, þegar Ásdís Egilsdóttir, prófessor við Háskóla Íslands ræddi um karlmennsku í íslenskum miðaldabókmenntum. Lagði Ásdís áherslu á sögur af svokölluðum kolbítum, "vandræðadrengjum" sem vildu fremur dvelja í eldahúsi en takast á við drengjaleiki, útiverk og erfiði þótt yfirleitt væru þeir aflmiklir og unnu afrek þegar þeim var loks komið úr húsi. Grettir Ásmundarson er kannski þeirra frægastur. Ásdís fjallaði um kynhlutverk og takmarkanir, kyn og kyngervi. Hún sagði við hæfi að rannsaka karlmenn, ný sýn hefði komið fram með feminískum rannsóknum og að karlmenn væru miklu flóknari en við héldum. Hún minnti á hið fræga dæmi úr Gísla sögu Súrssonar, þegar Auður kona Gísla rak silfursjóð á nasir Eyjólfi og skyldi hann muna svo lengi sem lifði "að kona hefur barið þig", en Eyjólfur karlkenndi hana svo sem "blauðan hund". Ásdís nefndi svo Áns sögu bogsveigis en fór síðan vel í gegnum Ketils sögu hængs, samskipti hans við föður sinn og manndómsraunir hans við heyskap og veiðar. Hann banaði svo auðvitað að lokum dreka miklum. Var gerður góður rómur að bráðskemmtilegri umfjöllun Ásdísar og urðu nokkrar umræður í lokin, m.a. um riddarasögur miðalda, úr hvernig einingum þær eru unnar, söguritun miðalda á Íslandi, öskubuskur og norska öskustráka ("askeladder"). Mjög fróðlegt.

Texti og mynd: Hans Kristján Guðmundss