Árni Finnsson formaður Náttúruverndarsamtaka Íslands. 
Myndin er fengin af heimasíðu samtakanna.
Árni Finnsson formaður Náttúruverndarsamtaka Íslands.
Myndin er fengin af heimasíðu samtakanna.

Árið 2016 fór vel af stað á vettvangi U3A Reykjavík. Fyrsti þriðjudagsviðburður ársins var erindi Árna Finnssonar, formanns Náttúruverndarsamtaka Íslands, Loftslagsbreytingar og hafið - frá Ríó 1992 til Parísar 2015.

Árni fór í stuttu máli yfir þá samninga sem gerðir hafa verið um hafið, hafrétt, eiturefni o. fl. Hann rakti þróun umræðunnar á alþjóðavettvangi og hvernig umræða á Íslandi hefði verið í grófum dráttum. Hann vakti m.a. athygli á sterkum yfirlýsingum íslenskra ráðherra og fulltrúa þeirra í alþjóðlegu samhengi sem því miður hefðu lítið verið kynnt hér heima. Spunnust skemmtilegar umræður að loknu erindi og var gerður góður rómur að máli hans.

Ágrip erindisins:
Vera má að flestir Íslendingar telji að sigur Íslands í þremur þorskastríðum hafi unnist með togvíraklippum og átökum við bresk herskip. En hafa má í huga að 200 mílna efnahagslögsaga landsins (og allra annarra strandríkja) byggir á Hafréttarsáttmála Sameinuðu þjóðanna frá 1982. Bresk stjórnvöld viðurkenndu full yfirráð Íslands yfir eigin landhelgi sex árum fyrr með tvíhliða samningi. E.t.v. má segja að breskir ráðamenn hafi verið nógu skynsamir til að sjá fyrir að fyrr en síðar yrði samþykktur nýr hafréttur, gjörbreyttur frá þeim sem kenndur er við Grotius, hinn hollenska, og veitti breskum herskipum frelsi til fara fram að vild á úthöfunum.

Alþjóðahafréttarsáttmálinn varð að alþjóðalögum árið 1994. Bandaríkin hafa ekki fullgilt hann en fara að honum í einu og öllu. Auk Ríó-yfirlýsingarinnar frá 1992 voru samþykktir tveir nýir sáttmálar, annar um loftslagsbreytingar en hinn um líffræðilega fjölbreytni. Einnig var samþykkt verkáætlun, Dagskrá 21 (Agenda 21), eins konar framkvæmdaáætlun, t.d. um þrávirk lífræn efni sem og samningur um úthafsveiðar á grunni Hafréttarsáttmálans.

Árið 2001 var skrifað undir Stokkhólmssamninginn um bann við 12 hættulegustu eiturefnunum og árið 1994 var skrifað undir Úthafsveiðisáttmála Sameinuðu þjóðanna. Nú síðast í París náðist loks samkomulag 195 ríkja um aðgerðir til að stemma stigu við hlýnun andrúmsloftsins. Markmið samkomulagsins er að halda hlýnuninni vel innan við 2°C og að stefnt skuli að því að hún verði ekki meiri en 1,5°C. Hlýni umfram það fara flest láglend eyríki undir yfirborð sjávar vegna hækkandi sjávarstöðu.

Ríki hafa ólíka hagsmuni og því þurfa sameiginlegir hagsmunir af sameiginlegum aðgerðum, til dæmis til að koma í veg fyrir stjórnlausar loftslagsbreytingar, að vera mjög miklir. Rétt eins og ríki heims sáu fyrir að stjórnlausar veiðar uppi í kartöflugörðum myndu fyrr eða síðar útrýma stofnum sem fiskveiðiþjóðir nýta. Hluti hnattvæðingarinnar felst í aukinni samvinnu um brýn hagsmunamál eins og verslun, tolla, heilbrigðismál og ekki síst til að bægja frá umhverfisógnum sem eru margs konar og erfiðar viðfangs.

Texti: Hans Kristján Guðmundsson