U3A Reykjavík hefur nú hafið þátttöku í nýju tveggja ára verkefni í Evrópusamstarfi undir hatti Erasmus+ áætlunar ESB. Verkefnið hefur skammnefnið HeiM, á ensku “Heritage in Motion”, með undirtitil “Innovative Methodologies for Adult Education in Cultural Heritage and Active Ageing”. Verkefnið er styrkt af Erasmus+ áætlun ESB í gegnum spænsku Erasmus+ skrifstofuna SEPIE.

Samstarfsaðilar okkar eru Universidad de Alicante - Universidad Permanente (UPUA), sem unnu með okkur að BALL verkefninu og sjá hér um verkefnisstjórn, Public Open University Zagreb (POUZ) og Democratic Society East (TDW), Varsjá. Verkefninu er stýrt af UPUA. Stjórn U3A Reykjavík hefur skipað verkefnisteymi félaga í samtökunum og ráðgefandi sérfræðingahópur hefur verið myndaður.

Markmið verkefnisins er fyrst og fremst að hvetja og laða fólk, fimmtíu ára og eldra til hreyfingar og ferða á vit menningararfleifðarinnar í víðasta skilningi þess orðs. Ferðir þessar geta verið lengri eða skemmri, eins-manns-ferðir eða í hóp, gangandi eða með öðru móti en þær eiga ávallt að vera vekjandi og fræðandi. Hannað verður námskeið fyrir þennan markhóp með það fyrir augum að nýta nýjar aðferðir og tækni til þess að tengja hann menningararfinum, skilgreina leiðir og nýta hugbúnað og öpp til þess að birta þær á vefnum. Í lok verkefnis verða svo gefnar út námskeiðslýsingar og leiðbeiningar með dæmum um leiðir í öllum þátttökulöndunum.

Opnuð hefur verið síða á facebook, (https://www.facebook.com/Heritage-in-Motion-Erasmus-Project-2821481307865859/) þar sem fylgjast má með fréttum af verkefninu á ensku og fjórum tungumálum samstarfsþjóðanna. Vefsíða verður svo opnuð fljótlega en hér eru smá upplýsingar á ensku.