Birna, Hjördís og Ingibjörg standa vaktina á Vísindavöku
Birna, Hjördís og Ingibjörg standa vaktina á Vísindavöku

U3A Reykjavík tók þátt í Vísindavöku Rannís í annað sinn 28. september síðastliðinn. Vísindavaka Rannís er haldin ár hvert þriðju helgina í september um leið og hún er haldin  í helstu borgum Evrópu undir nafninu The Researchers' Night. Á Vísindavökunni koma háskólar, stofnanir, fyrirtæki og félög saman við að kynna það nýjasta í rannsóknum og er Vakan  vel sótt af almenningi, ungum sem öldnum.

 U3A Reykjavík kynnti þar á bás sínum starf samtakanna með sérstakri áherslu á þau verkefni sem unnin hafa verið á vettvangi U3A á síðustu árum í Evrópusamstarfi og beinast að stöðu og tækifærum þriðja æviskeiðsins, fólki yfir fimmtugt, í samfélaginu. Þetta voru annars vegar endurunnin gerð vefgáttarinnar Vöruhúss tækifæranna, sem á uppruna sinn í rannsóknarvinnu BALL samstarfsins og er enn í stöðugri þróun. Hins vegar var Erasmus+ verkefnið HeiM, Leiðir að menningararfinum kynnt, en það beinist að því að nýta snjalltæki til að hanna og lýsa slíkum leiðum að menningararfinum með áherslu á þarfir 50+.

Vísindavakan var að venju vel sótt og lögðu margir, ekki síst þau 50 ára og eldri, leið sína í bás U3A Reykjavík þar sem U3A félagar undir forystu Hjördísar Hendriksdóttur og Ingibjargar Rannveigar Guðlaugsdóttur tóku vel á móti gestum og sögðu frá starfinu og stöðu þessara verkefna.