Félagar í U3A og Breiðfirðingafélaginu fóru í velheppnaða ferð um sveitir og sögu Breiðafjarðar laugardaginn 2. júní. Farinn var „gullni söguhringurinn“ um Hvammssveit, Fellsströnd, Klofning, Skarðsströnd, Saurbæ og endað í Ólafsdal. Svavar Gestsson sá um leiðsögnina og miðlaði fróðleik um sögu og menningu sveitarinnar. Á Skarði var kirkjan skoðuð og hin merkilega altaristafla frá 15. öld sem Ólöf ríka lét gera og gaf til minningar um mann sinn Björn. Komið var við hjá Kristjóni Sigurðssyni þar sem hópurinn þáði kaffi og meðlæti á fögrum stað í Salthólmavík. Loks var haldið til Ólafsdals þar sem áður var rekinn bændaskóli en nú eru mikil áform um endurreisn og uppbyggingu húsanna sem þar voru.

Ferðin var bæði fróðleg og skemmtileg og góður endapunktur á samstarfi U3A og Breiðfirðingafélagsins um Breiðfirsk fræði nú í vor.